*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 25. apríl 2019 18:04

Heiðar ráðinn forstjóri Sýnar

Framundan eru krefjandi verkefni segir Heiðar Guðjónsson nýráðinn forstjóri Sýnar.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson tekur við sem forstjóri Sýnar.
Haraldur Guðjónsson

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Sýnar hf., hefur ákveðið að segja sig úr stjórn félagsins. Hjörleifur Pálsson hefur tekið við stjórnarformennsku og Sigríður Vala Halldórsdóttir varastjórnarmaður tekið sæti í stjórn. Samhliða þessum breytingum hefur verið gengið frá ráðningu Heiðars Guðjónssonar sem forstjóra Sýnar hf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn.

„Heiðar hefur stýrt stjórnarstörfum undanfarin ár af röggsemi," er haft eftir Hjörleifi Pálssyni, stjórnarformanni Sýnar, í tilkynningunni. „ Það er mikill fengur af því að fá hann til þess að leiða daglegan rekstur félagsins, enda hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á starfseminni. Við bjóðum hann því velkominn til starfa á nýjum vettvangi."

Heiðar segist þakklátur fyrir það traust sem honum sé sýnt með þessari ráðningu. „Framundan eru krefjandi verkefni, sem ég hlakka til að leysa af hendi í samstarfi við allt það framúrskarandi fólk sem starfar hjá Sýn hf," er haft eftir Heiðari í tilkynningunni.

Í lok febrúar óskaði Stefán Sigurðsson eftir því að láta af störfum sem forstjóri en hann hafði gegnt stöðunni frá því í maí 2014. Átti hann formlega að hætta þann 1. júní en nú er ljóst að hann mun láta af störfum fyrr og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður það líklega í næstu viku. Stefán tók á sínum tíma við forstjórastöðunni af Ómari Svavarssyni, sem í dag er forstjóri Securitas.

Þegar Stefán óskaði eftir því að hætta fól stjórn Sýnar Heiðari að annast í auknum mæli skipulag félagsins og átti hann jafnframt að gæta þess að rekstur þess yrði í réttu og góðu horfi fram að ráðningu nýs forstjóra. Líkt og komið hefur fram hefur Heiðar nú verið ráðinn í starfið.