Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, hefur selt allan 12,72% hlut sinn í fjarskiptafélaginu fyrir ríflega 2,2 milljarða króna. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu. Heiðar mun láta af störfum sem forstjóri félagsins fyrir lok þessa mánaðar, að því er kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar.

Gengið í viðskiptunum er 64 krónur á hlut, sem er 9,4% yfir lokagengi Sýnar á föstudaginn.

Samkvæmt heimildum mbl.is tjáði Heiðar samstarfsfólki sínu í morgun að hann hefði orðið fyrir heilsubresti fyrr á þessu ári og honum hafi verið ráðlagt að minnka við sig í vinnu.

Heiðar keypti 0,75% hlut í Sýn fyrir 115 milljónir króna í byrjun júní og varð þar með stærsti hlutafi Sýnar.

Heiðar hefur gegnt stöðu forstjóra Sýnar frá því í apríl 2019. Hann sat þar áður í stjórn félagsins frá árinu 2013 og var stjórnarformaður frá 2014 til 2019.

Ekki náðist í Heiðar við vinnslu fréttarinnar.