Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, skortseldi á sínum tíma hlutabréf bandaríska orkufyrirtækisins Enron sem varð gjaldþrota árið 2001 eftir að upp komst um stórfelld bókhaldssvik. Heiðar segist hafa lagt mikið undir og grætt hundruð milljóna af þessum viðskiptum. Heiðar greindi frá þessu er hann var spurður um bestu fjárfestinguna á sínum ferli í hlaðvarpinu Chess After Dark.

Hann segist hafa kynnt sér rekstur Enron en „fékk þetta ekki til að ganga upp. Ég skildi ekki af hverju allir voru svona ginkeyptir fyrir þessu.“ Þá hafi vinir Heiðars unnið hjá Enron og lýst fyrir sér hvers konar orkuviðskiptum fyrirtækið ætti í. Heiðar segir að sér hafi ekki grunað að þarna væri bókahaldssvindl að baki en mat það sem svo að markaðsvirði félagsins væri ekki í takt við raunveruleikann.

„Miðað við [áætlaðar] vaxtartölur þá hefði þetta fyrirtæki átt að taka yfir nánast öll viðskipti með orku í heiminum á næstu þremur til fjórum árum til að standa undir þessu verðmati.“

Í framhaldinu lýsti Heiðar því að sér þætti verðmatið á rafbílaframleiðandanum Tesla vera „algjörlega út úr kortinu“ og spáir því að gengi félagsins muni á endanum hríðfalla. „Tesla stendur engan veginn undir þessum verðmiða. Þetta er algjör þvæla.“ Tesla er í dag verðmætasti bílaframleiðandi heims með 960 milljarða dala markaðsvirði.

Afríkunáma versta fjárfestingin

Spurður um verstu fjárfestinguna sína, nefndi Heiðar sérstaklega námuvinnslu í Afríku. „Það var alveg hræðilegt. Ég vissi að það væri rosaleg áhætta,“ segir Heiðar og bætir síðar við: „Ég sá fyrir allt sem gæti farið úrskeiðis og það fór ekki bara eitt heldur allt.“

Viðskiptablaðið fjallaði í vetur um fjárfestingu Novator, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, í tveimur félögum sem stefndu að gullgreftri og vinnslu sjaldgæfra málma í Afríku. Annað þeirra var þýska félagið Tantalus Rare Earth Metals en þar var Heiðar einnig meðal fjárfesta í gegnum félagið Ursus Capital AG. Tantalus stefndi á námuvinnslu á sjaldgæfum málmum nyrst á Madagaskar en í stuttu máli gengu óformin ekki eftir.

„Ég hef átt margar vondar fjárfestingar. Mesta eftirsjáin eru fjárfestingar sem maður er ekki alveg viss með og veit að maður veit ekki nógu mikið. Þá er svo auðvelt að vera sár eftir á og velta sér upp úr því.“

Heiðar nefnir í því samhengi að hann hafi fjárfest í ferðaþjónustu sem hafi misheppnast vegna Covid-faraldursins. „Það var svo sem eitthvað sem ég var alls ekkert svekktur yfir þar sem ég sá ekki heimsfaraldurinn fyrir.“

Krónan bara fyrir embættis- og stjórnmálamenn

Heiðar var spurður hvort hann væri stuðningsmaður íslensku krónunnar. Svarið var afdráttarlaust.

„Ég er á móti öllum þjóðargjaldmiðlum. Þjóðargjaldmiðlar eru búnir til til þess að hafa dulda skattheimtu í gangi. Það sem kallað er verðbólga er bara óstjórn í peningamálum. Verðbólguskattur er í raun og veru kostnaður almennings af verðbólgu. Stuðningsmenn krónunnar kalla þetta myntsláttuhagnað en þetta er bara skattur og eina form skattheimtu sem þarf ekki að fara í gegnum Alþingi, þ.e. þarf ekki blessun löggjafans fyrir.“

Hann tók einnig dæmi um austurríska hagfræðinginn og gyðinginn Ludwig von Mises sem flúði Austurríki vegna hernáms Nasista. Mises gat ekki flutt peningana sína þar sem ekki hafi verið tekið við austurríska skildingnum í öðrum löndum. Alþjóðlegur gjaldmiðill hefði í þessu tilviki ekki getað hamið fjármagnsflóttann.

„Fjármagnsflótti er rosalega gott aðhald á stjórnvöld. Þau eiga ekki að geta læst almenning eða fyrirtæki inni. Þjóðargjaldmiðill er einmitt búinn til þess – til þess að búa til einhvers konar miðstýringu,“ segir Heiðar. „Ég hef ekki séð eitt einasta land í hagsögunni þar sem miðstýring hefur virkað.“

Heiðar, sem hefur áður lýst yfir áhuga á upptöku Bandaríkja- eða Kanadadollars, segir að alþjóðlegur gjaldeyrir hefði í för með sér fleiri nýsköpunarfyrirtæki en ella, meðal annars vegna greiðari aðgangs að fjármagni. Áhættuálag á íslensku krónuna hækki vaxtastig hér sem „dregur mjög úr nýsköpun“. Fyrir vikið verði íslenska hagkerfið einsleitara.

Einnig ávarpar Heiðar „mýtuna“ um að íslenska krónan væri útflutningsfyrirtækjum í hag. Hann bendir á að stóru útgerðarfyrirtækin geri upp bókhald sitt í evrum og pundum, Landsvirkjun og Icelandair í dollurum og stóriðjan geri upp í alþjóðlegum gjaldeyri.

„Ef krónan væri svona æðisleg þá væri náttúrulega gert upp í krónum. Þá spyr maður sig, ef þetta er ekki fyrir útflutningsgreinarnar, fyrir hvern er þetta þá? Þá er þetta bara fyrir embættismenn og stjórnmálamenn. Þannig að þeir hafi alltaf tækifæri til að fara í peningaprentun.“

Vill sjá mynt á orkufæti

Umsjónarmenn hlaðvarpsins, Birkir Karl Sigurðsson og Leifur Þorsteinsson, spurðu Heiðar hvort hann hefði fjárfest í rafmyntinni Bitcoin. Heiðar svaraði því neitandi en kvaðst þó hrifinn af hugmyndafræðinni en ekki rafmyntinni sem slíkri. Orkan sem fari í hana tapist og fáist ekki aftur.

„Ég myndi vilja búa til mynt sem stendur á orkufæti frekar en að hún stæði á gullfæti eða verðbólgufæti,“ og nefndi þar olíu, gas og rafmagn - vörur sem myndi grunninn að öllum hagvexti –sem kosti.

Heiðar segir að ef hægt væri að innleysa orkuna sem fer í námugröft á Bitcoin, þá þætti sér rafmyntin sniðug. Við núverandi fyrirkomulag sé hins vegar gríðarmikilli orku varið í að búa til Bitcoin sem ekki verður afturkvæm. Hann sjái því ekki virði myntarinnar. „Hvers virði er Bitcoin nema ef einhver vilji taka við [rafmyntinni]? Það er ekkert undirliggjandi.“