Fjármálaþinginu lauk með pallborðsumræðum, þar sem þátttakendur voru þau Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, Jón Björnsson, forstjóri Festi og Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Íslandsbanka, en umræðum stjórnaði Edda Hermannsdóttir samskiptastjóri Íslandsbanka.

Þegar talið barst að innviðafjárfestingu sagði Heiðar að afar æskilegt væri að fá einkaaðila að fjármögnun slíkra verkefna og benti á Hvalfjarðargöng sem dæmi um vel heppnaða fjárfestingu af því tagi. Sagði hann að fjárfestingin hefði skilað öllu því sem hún hafi átt að skila, bæði hvað varðar samgöngubætur sem og vænta arðsemi til fjárfesta. Vaðlaheiðargöng sagði Heiðar hins vegar dæmi um illa heppnaða opinbera framkvæmd.

Við þessi orð Heiðars minnti Edda hann á að umræðum væri þarna stjórnað af Akureyringi og gaf í skyn að hún væri frekar hallari undir göngin en hitt. „Til hamingju þá með stærsta gufubað á Íslandi,“ svaraði Heiðar og uppskar mikinn hlátur í salnum.