Á fullveldisdaginn opnaði veitingastaðurinn Salt – Kitchen & Bar fyrst dyr sínar fyrir gestum en staðurinn, sem er í gömlu beitningaskúrunum við Geirsgötu, hyggst sérhæfa sig í íslenskum gæðafiskréttum.

„Okkur fannst þessi staðsetning vera fullkomin til að koma þessum heiðarlega íslenska veitingastað fyrir, en við leggjum mikla áherslu á að vera góðir í íslenskum fiski,“ segir Guðmundur Kristinn Pálsson einn eigenda veitingastaðarins Salt – Kitchen & Bar sem hóf rekstur í byrjun mánaðarins. „Við bjóðum þó upp á alla flóruna og erum með kjötrétti líka, til dæmis erum við með Porterhouse steik sem og vegan rétti.“

Meginhugsunin er að bjóða upp á tengingu við upprunann, að sögn Guðmundar, þá fyrir hvort tveggja ferðamennina sem margir eiga leið þarna framhjá en einnig Íslendinga. „Það sem kannski lýsir hugmyndinni á bak við veitingastaðinn best er einfaldleiki í öllu,“ segir Guðmundur.

„Þá á ég við að við erum ekki með marga rétti á matseðli, en við erum með góða rétti, og við erum heldur ekki með marga kokteila, en við erum með góða kokteila. Hugsunin er sú að eftir því sem einfaldleikinn er meiri þá geri maður hlutina betur.“

Beitningaskúr og æfingahúsnæði Bjarkar

Guðmundur segir anda eftirstríðsáranna svífa yfir vötnum á veitingastaðnum og er hugsunin að reyna að halda í þá stemningu. „Við ætlum að bjóða upp á drykki af gamla skólanum en út um allt hús eru myndir frá höfninni frá þeim tíma, en efri hæð- in verður mikið notuð fyrir hvataferðir fyrir fyrirtæki og aðra hópa sem verða hafðar í þessum gamla tíðaranda,“ segir Guðmundur sem segir húsið eiga mikla sögu.

„Árið 2015 tók til starfa í húsinu veitingastaðurinn Verbúð 11 – Lobster and stuff, en þar á undan höfðu eigendur hússins, þau Jón Sigurðsson sem gerði út á Sindra RE í mörg ár og Guðrún eiginkona hans rekið hérna veitingastað. Þetta hefur verið beitningaskúr alveg frá árinu 1940 en í eldhúsinu hérna uppi voru Björk Guðmundsdóttir og Sykurmolarnir með æfingaaðstöðu.“

Guðmundur, sem er viðskiptafræðingur sér um reksturinn, en með honum eru bræður hans tveir og faðir þeirra ásamt fleirum. Auk þess fengu þeir reynda kokka með sér. „Við reyndum að para þessu saman þannig að við séum með góða menn á öllum sviðum sem koma að svona rekstri, en þeir Þorsteinn Guðmundsson og hans hægri hönd, Ragnar Guðmundsson sem á Old Iceland á Laugavegi, hafa verið að þróa matseðilinn með okkur, en þeir eru í forsprakki fyrir þessa tengingu við ræturnar í gamla daga,“ segir Guðmundur.

„Við erum flestir ættaðir utan af landi, frá Ísafirði og Seyðisfirði, og fjölskyldur okkar hafa verið mikið tengdar sjávarútvegi. Feður tveggja stærstu eigendanna eru sjóarar og hafa gert út í mörg ár frá því að þeir voru ungir, og þess vegna langaði okkur að opna veitingastað sem væri þá tengdur sjómennskunni.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .