Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) heiðraði í gærkvöldi þær Ernu Gísladóttur, Hildi Petersen og Söndru Mjöll Jónsdóttur Buch fyrir eftirtektarverð störf þeirra í atvinnulífinu á árlegri hátíð sinni, sem haldin var í Gamla bíói. Erna Gísladóttir, sem er forstjóri bílaumboðsins BL ehf., hlaut FKA viðurkenninguna 2018. Hildur Petersen,  framkvæmdastjóri Vistvænnar framtíðar, fékk Þakkarviðurkenningu FKA og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, framkvæmdastjóri Platome Líftækni, Hvatningarviðurkenningu FKA 2018.

Í fréttatilkynningu frá FKA segir að um fimm hundruð manns voru við afhendinguna, þar á meðal fjöldi kvenna og karla úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs. Þetta er í nítjánda sinn sem hátíðin er haldin en í ávarpi Rakelar Sveinsdóttur, formanni félagsins, kom fram að sjaldan hefði verið jafn áríðandi  og nú, að draga fram fyrirmyndir í atvinnulífinu. Ekki aðeins væri #metoo byltingin að kalla á miklar breytingar, heldur lifði hið ósýnilega glerþak enn góðu lífi sem ekki einu sinni lög Alþingis væru að ráða við.

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, veitti viðurkenningarnar í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar­ráðherra.

Þá hafði stjórn FKA, hvatt allar konur í íslensku atvinnulífi til að klæðast svörtu í dag, til stuðnings #metoo byltingunni. Ákallinu var vel tekið og klæddust bæði karlar og konur svörtu víðs vegar í dag auk þess sem svarti liturinn undirstrikaði sterka samstöðu gesta á hátiðinni. Í ræðu formanns FKA kom fram að félagið taki það hlutverk sitt alvarlega að fylgja eftir #metoo byltingunni með ýmsum aðgerðum.