Heiðrún Lind Marteinsdóttir hefur lengi verið lögmaður sem töluvert ber á í umræðunni, enda er hún óhrædd við að tjá skoðanir sínar og segir að ef til vill séu lögfræðingar of tregir til að tjá sig opinberlega um lög og lögfræðileg málefni.

Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi í raun verið slembilukka að hún endaði í lögfræðinámi. „Ég fór til London eftir stúdentspróf frá MR og hitti þar eina vinkonu mína sem bar laganáminu mjög góða söguna. Hún dásamaði námið og sannfærði mig um að láta slag standa. Ég skráði mig því í nám í fyrsta árgangi laganema við Háskólann í Reykjavík og komst að því að lögfræði átti einkar vel við mig og sú er raunin ennþá. Það er gaman að fá áhugaverð verkefni til úrlausnar innan ákveðins tímaramma og sjá því nokkuð fljótlega árangur vinnu sinnar.“

Að loknu laganámi hóf Heiðrún Lind störf hjá lögmannsstofunni Lex, þar sem hún hefur einkum sinnt ráðgjöf og flutt mál fyrir fyrirtæki og sveitarfélög. „Lex er stofa sem leggur áherslu á fyrirtæki og mitt sérsvið þar er einkum samkeppnisréttur, en við höfum yfir að búa mjög öflugu samkeppnisréttarteymi, en ég hef einnig unnið töluvert í verktaka- og útboðsrétti fyrir sveitarfélög.“

Heiðrún Lind hefur mikið fjallað opinberlega um samkeppnisrétt í ræðu og riti og bent á það sem henni þykir betur mega fara í eftirliti með samkeppnismálum. „Það getur verið kostur og ókostur að hafa sterkar skoðanir og tjá þær, en mér finnst að ef einhverjir eiga að hafa skoðanir á lögunum þá eru það lögmenn. Þeir eru hins vegar e.t.v. stundum of tregir til að tjá þær.“

Nánar er spjallað við Heiðrúnu Lind í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .