Ríkissjóður þarf að leggja fram 40 milljónir króna  til að koma til móts við hækkun á heiðurslaunum listamanna, samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga sem mælt var fyrir á Alþingi í dag.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, sagði í umræðu um fjáraukalögin upphæðina þurfa að renna til heiðurslaunanna til að stemma vð lagasetninguna í vor. Hann sagði málið hafa verið kynnt fyrir fjárlaganefnd Alþingis.

Breytt lög um heiðurslaun listamanna sem samþykkt voru á vorþingi tóku gildi um síðustu mánaðamót. Í lögunum er m.a. þak á fjölda þeirra sem fá heiðurlaun Alþingis og þau miðuð við 80% af starfslaunum. Allt að 25 listamenn njóta heiðurslaunanna samkvæmt síðustu fjárlögum.