Það er aðeins tímaspursmál hvenær flugfreyjur Play Air munu þurfa að setjast niður með Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ) að sögn Drífu Snædal forseta ASÍ. Forstjóri félagsins, Birgir Jónsson, telur á móti að annarlegir hvatar búi að baki herferð ASÍ gegn félaginu. Tvímenningarnir tókust á á Sprengisandi í dag og er óhætt að segja að það hafi verið heit umræða.

Skeytasendingar hafa gengið aðila á milli síðustu daga. Í fyrstu hvatti ASÍ launþegar og fjárfesta til að sniðganga félagið þar sem það byði starfsfólki sínu upp á hálfgerð þrælakjör sem væru á skjön við það sem þekktist á íslenskum vinnumarkaði. Samanburður hefur síðan leitt í ljós að talsverður vafi er uppi um þá fullyrðingu.

„Ég held að það viti það enginn en betur en fyrrverandi flugfreyjur Wow air að það skiptir gríðarlega miklu máli að vera í sterku stéttarfélagi. Þegar Wow fór á hausinn þá hleypur Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) undir bagga,“ sagði Drífa. Benti hún á að margar flugfreyjur og flugliðar Play hefðu áður starfað hjá Wow og myndu því endurvekja réttindi sín hjá félaginu, eina „alvöru stéttarfélagið“ í þessum geira héra landi, með því að skrá sig í það aftur.

Fundaði með félaginu en kannaðist ekki við það

„Fyrst snerist þetta mál um að kjörin hjá Play væru slík að við værum að segja okkur úr samfélagi siðaðra manna. Það er augljóslega rangt heldur eru launin og kjörin, samkvæmt kjarasamningi við ÍFF, öðruvísi en hjá öðru félagi. Ég hef ekki séð kjarasamning FFÍ við Icelandair enda eru þarna tvö einkafyrirtæki sem stilla starfsemi sinni upp með mismunandi hætti og því fer fjarri að samningurinn við Icelandair sé eitthvað gullinsnið í þessum geira,“ sagði Birgir.

Drífa sagði á móti að fyrir nokkru síðan hefði hún fengið fund með fulltrúum ÍFF en sá fundur hefði vakið upp fleiri spurningar en svör. ASÍ hefði ekki fengið að sjá samninginn við Play fyrr en hann var sendur ríkissáttasemjara til staðfestingar. Þar væru á ferð „lægstu laun sem við höfum séð“, þar sem takmarkað væri greitt í lífeyris- og tryggingasjóði og það „hefði ekki verið véfengt“. Því andmælti Birgir.

„Í þessa umræðu alla þá vantar þetta félag. Það hafa allir fjölmiðlamenn landsins reynt að ná á ÍFF og þeir einu sem svara fyrir það er Play. Hverjir eru eiginlega í þessu félagi,“ spurði Drífa. Þáttarstjórnandinn Kristján Kristjánsson spurði hana þá að skömmu áður hefði hún sagt að hún hefði fundað með forsvarsmönnum félagsins og ætti því að vita eitthvað um það.

„Já, ég talaði við það áður en byrjað var að ráða starfsfólk en ég veit ekki hverjir fara fyrir því í dag. Við skulum ekki gleyma því að það er grundvallarregla íslensks vinnuréttar að stéttarfélög eru samtök vinnandi fólks sem gera samninga í krafti samstöðu sinnar. Þú getur ekki gert kjarasamning við einn eða tvo aðila og byrjað síðan að ráða fólk inn. Það gengur í berghögg við grundvallarskilgreiningu á stéttarfélögum. Það er ekki í hag launafólks þegar svona skítamix er í gangi og það felur í sér aðför að kjörum allra,“ segir Drífa.

Leynd yfir kjarasamningi við Icelandair

Birgir benti á að hann hefði ekki séð samning Icelandair við FFÍ en skrifað var undir hann í aðdraganda hlutafjárútboðs félagsins síðasta haust þegar Icelandair barðist í bökkum. Á þeim tíma reyndu flestir fjölmiðlamenn landsins að fá upplýsingar um hvað fólst í honum en sá samningur var trúnaðarmál og fékkst hvergi afhentur.

„Allt í einu núna er síðan orðin einhver krafa að kjarasamningar séu opinber gögn,“ sagði Birgir. Benti hann á að kjarasamningar félagsins hefðu verið grannskoðaðir af þremur lögfræðistofum fyrir hlutafjárútboð félagsins, þar sem lífeyrissjóðir fjárfestu meðal annars, þar sem þessi mál þyrftu að vera algjörlega á hreinu. Ella hefðu fjárfestar ekki komið að borðinu. „En það sjá allir að það gengur ekki að stærstu og virtustu launþegasamtök landsins dragi upp stóra sverðið, haldi því upp að hálsi nýs félags og reyni að neyða það að kjarasamningum Icelandair.“

Nokkuð var rætt um þá staðreynd að þegar til fundar ASÍ og Play átti að koma hafi Play ekki viljað sitja þann fund þar sem ASÍ gerði það að skilyrði að fulltrúi FFÍ fengi að sitja hann. Sagði Drífa að auðvitað myndi ASÍ taka sinn helsta sérfræðing í kjaramálum flugliða með á slíkan fund.

„Fulltrúi FFÍ á ekkert erindi á þennan fund. Tókuð þið til að mynda með ykkur fulltrúa frá FÍA þegar við vorum að ræða kjör flugmanna?“ spurði Birgir og Drífa svaraði neitandi enda FÍA ekki innan ASÍ. „Akkúrat. Þú er bara í hagsmunagæslu fyrir þín aðildarfélög og að reyna að neyða fólk í sama samning og Icelandair er með. Við erum með fullgildan kjarasamning við annað félag,“ sagði Birgir.

Enn fremur deildu þau um það hvort eðlilegt væri að viðræður sem þessar færu fram með skeytasendingum í fjölmiðlum og beinni útsendingu á Bylgjunni en ekki í fundarherbergjum. Sagði Drífa að kjarasamningurinn skrældi niður öll þau réttindi sem launafólk hefði barist fyrir um áratugaskeið. Sökum þess hefði ASÍ hvatt fólk og fjárfesta til að sniðganga félagið, það er vegna þessara kjarasamninga við þetta vafasama stéttarfélag sem enginn fengist til að svara fyrir nema forsvarsmenn Play.

Gekk út strax eftir útsendingu

„Hver eru eiginlega lágmarkslaun Play?“ spurði Drífa Birgi sem svaraði um hæl að þau væru 350 þúsund. Spurði Drífa þá hvort þar væri á ferð sú tala sem greitt væri í lífeyrissjóð. Þeirri spurningu svaraði Birgir með spurningu.

„Getur þú staðfest við mig að grunnlaun Icelandair sé 310 þúsund?“ spurði Birgir. Svaraði Drífa því að það væru föst lágmarksgrunnlaun. Þá staðfesti Birgir að „á sömu forsendum“ væri greitt af 350 þúsund krónum í lífeyrissjóð.

„Ef þetta stéttarfélag væri svona mikið handbendi mitt þá hefði það komið inn í umræðuna í vikunni og hjálpað við að taka til varna,“ sagði Birgir og spurði Drífa þá hvort einhverjar flugfreyjur væru í því. Því svaraði Birgir að hún yrði að spyrja félagið. „Ég held að þetta svar segi allt sem segja þarf,“ sagði Drífa þá.

Umræðan var á köflum mjög heit og mikið um framíköll svo að Kristján mátti hafa sig allan við að hafa hemil á umræðunni. Um leið og samtalinu lauk mátti heyra á útsendingunni að annað þeirra hafi staðið snöggt upp úr sæti sínu, gengið snögglega á dyr og lokað á eftir sér. Eðli málsins samkvæmt sást ekki í gegnum útvarpið hvort þeirra var þar á ferðinni.

Leiðrétting Í upphaflegri útgáfu var staðhæft að viðmælandi þáttarins hefði strunsað út og skellt á eftir sér. Viðskiptablaðinu hafa borist ábendingar um að þar hafi verið of fast að orði kveðið. Millifyrirsögn og síðustu málsgreininni hefur verið breytt í samræmi við þetta.