Í samvinnu við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur Háskólinn á Bifröst gert skýrslu um umfang íbúðagistingarmarkaðarins á Íslandi.

Skráningu útleigðra íbúða hefur verið talin ábótavant, og sækist skýrslan eftir því að varpa ljósi á stöðu mála í gistileigumarkaðnum.

Í henni segir að vegna mikils vaxtar í ferðamannaiðnaði hafi framboð á hótelherbergjum ekki getað mætt eftirspurn fyrir gistiplássi, og að íbúðir í útleigu á Airbnb hafi að öllum líkindum létt þann þunga talsvert.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að einfalda þurfi leyfisveitingaferlið þannig að auðveldara verði fyrir einyrkja að stunda þessa starfsemi löglega en nú er mikill meirihluti íbúða á Airbnb rekin án tilskilinna leyfa.

„Röng skráning íbúða getur haft alvarlegar afleiðingar t.d. hvað öryggi varðar og skekkir samkeppni á markaði,“ segir í skýrslu háskólans. „Opinberir aðilar verða að laga skráningarferli sitt og uppfæra miðlæga gagnagrunna um umfang íbúðagistingar.“