Mun minni tíma tekur fyrir íslenskan almenning að vinna sér inn fyrir heimilistækjum eins og sjónvarpi og ísskáp en fyrir aldarfjórðungi, þótt heimilistækin hafi hækkaði í verði að nafninu til. Árið 1985 voru mánaðarlaun iðnaðarmanna árið 1985 um 39.000 krónur á verðgildi þess árs. Mánaðarlaun verkamanns voru um 29.800 krónur. Vinnudagar í mánuði voru í kringum 21 talsins, eins og þeir eru reyndar enn, og daglaun iðnaðarmanns því um 1.860 krónur og daglaun verkamanns um 1.420 krónur.

Þetta þýðir að það tæki verkamann um 19,7 vinnudaga að vinna sér inn fyrir 20 tommu Philips litasjónvarpstæki, sem þá kostaði 27.990 krónur, samkvæmt auglýsingu í Morgunblaðinu. Iðnaðarmaður væri 15,1 vinnudag að vinna sér inn fyrir sama tæki. Með öðrum orðum tæki það verkamann árið 1985 tæpan mánuð að vinna sér inn fyrir einu sjónvarpstæki og væri þá lítið afgangs fyrir nauðsynjum eins og mat og þaki yfir höfuðið.

Í dag er ekki hægt að finna 20 tommu túbusjónvarp nema helst í Góða hirðinum. Nýr 22 tommu Philips flatskjár kostar hins vegar núna tæpar 60.000 krónur. Mánaðarlaun iðnaðarmanns árið 2010 voru rúmar 460.000 krónur og mánaðarlaun verkamanns voru um 340.000 krónur.

Þýðir þetta að verkamaðurinn var árið 2010 um 3,7 vinnudaga að vinna sér inn fyrir sjónvarpinu á meðan iðnaðarmaðurinn var um 2,7 daga að vinna sér inn fyrir því. Þeir eru því um fimm sinnum fljótari að vinna sér inn fyrir nýju sjónvarpi en kollegar þeirra voru fyrir 26 árum. Þá ber að hafa í huga að sjónvarpið í dag er smærra, tæknivæddara og sýnir mynd í hærri gæðum en gamla túban gerði árið 1985.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.