Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) á Selfossi er sú ríkisstofnun sem skuldaði mest í yfirdrátt í lok ársins 2013 eða um 68 milljónir króna. Á hverju ári síðan 2010 hefur HSU haft neikvæða sjóðstöðu á bankareikningum sínum samkvæmt ríkisreikningi. Á tímabilinu frá 2007 til 2011 greiddi stofnunin samtals 27,4 milljónir króna í yfirdráttarvexti, eða 5,5 milljónir á ári að jafnaði. Engin ríkisstofnun greiddi meira í yfirdráttarvexti á tímabilinu.

Heilbrigðisstofnanir Suðausturlands og Vstmannaeyja runnu inn í HSU um síðustu áramót. Yfirdráttarskuld hinnar sameinuðu stofnunar nam yfir 90 milljónum króna í lok árs 2014 miðað við ársreikning stofnunarinnar sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Fjármagnsgjöld stofnunarinnar umfram fjármagnstekjur voru 4,8 milljónir króna á síðasta ári.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Esther Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá HSU, að yfirdráttarskuldin hafi minnkað mikið það sem af er þessu ári. Stjórnendur stofnunarinnar eru meðvitaðir um að yfirdrátturinn er óheimill.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .