Páll Gunnar Pálsson hélt ræðu um samkeppni í heilbrigðisþjónustu á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, sem haldin var á föstudag.

Í ræðu sinni fjallaði Páll meðal annars um hversu erfitt væri að finna jákvæðar fréttir um íslenska heilbrigðiskerfið og hversu mikið Ísland fjárfesti í innviðum heilbrigðiskerfisins í samanburði við önnur OECD ríkin. Ísland varði um 0,1% af vergri landsframleiðslu  árið 2013 í þær fjárfestingar, meðaltal OECD var yfir 0,4% og Norðurlöndin vörðu um hálfu prósenti.

Páll segir því að verkefnið framundan sé að gera mikið út litlu. Páll benti til umræðu um fákeppni í íslenskum heilbrigðismálum en að mati Páls hafi stjórnvöld vanrækt að nýta kosti samkeppni á heilbrigðismarkaði.

„Við höfum vanrækt að virkja þennan drifkraft sem kallaður er samkeppni. Sá kraftur skapar aga í rekstri, leiðir til nýrra hugmynda, nýsköpunar og tækninýjunga. Og hann stuðlar að lægra verði, betri þjónustu og aukinni hagsæld.“

Páll benti einnig á reynslu Norðurlanda en þær hafi í auknu mæli nýtt sér kosti samkeppni í opinberum rekstri, m.a. á þann hátt að neytandi kjósi þjónustuaðila, fjármögnun fylgi óháð því hvort að aðilinn sé einkaaðili eða opinber aðili.

Að lokum segir Páll:

„Um leið og við getum og eigum að gera kröfu til stjórnvalda um skýra stefnumörkun í heilbrigðismálum, þar sem markmið samkeppnislaga verði höfð til hliðsjónar, verðum við einnig að gera ríkar kröfur til þeirra sem starfa nú þegar í velferðar- og heilbrigðisþjónustu, hvort sem um er að tefla opinber fyrirtæki eða einkarekin.

Við eigum t.d. að gera þá afdráttarlausu kröfu að þessi fyrirtæki starfi samkvæmt og í anda samkeppnislaganna. Samkeppnisyfirvöld hafa á fyrri tíð staðfest að heilbrigðisþjónusta lúti ákvæðum samkeppnislaga. Í þessu felst að fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu eiga að virða bann laganna við ólögmætu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Sömuleiðis ber að tryggja að einkarekin fyrirtæki sitji við sama borð og keppinautar í opinberri eigu. Þannig eiga opinber fyrirtæki ekki að njóta þeirrar stöðu sinnar í samkeppninni.

Fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu eiga jafnframt að hafa markmið samkeppnislaga að leiðarljósi við alla samningagerð. Þannig eiga þau að beita tækjum samkeppninnar til að ná sem hagstæðustum innkaupum. Og opinberir viðsemjendur þeirra, ríki og sveitarfélög, eiga á sama hátt að beita vönduðum útboðum til þess að ná sem hagstæðustum samningum um velferðarþjónustu, óháð eignarhaldi viðsemjenda.

Síðast en ekki síst verða fyrirtæki í velferðarþjónustu að kunna sér hóf. Ábyrgur rekstur þar sem t.d. einkarekin fyrirtæki taka hófsamar ákvarðanir um arðgreiðslur, er til þess fallinn að auka tiltrú á þessu sviði, og skapa þannig jarðveg fyrir heilbrigða samkeppni almenningi til hagsbóta. “