Nú geta Íslendingar sótt sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja EES-samningsins og fengið endurgreiddann útlagðan kostnað sem svarar því ef samsvarandi þjónusta hefði verið veitt hér á landi.

Byggir á Evróputilskipun

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson hefur sett reglugerð sem kveður á um þetta, en hún byggir á samsvarandi tilskipun Evrópusambandsins. Reglugerðin byggir á lögum frá 1. mars sem innleiddi Evróputilskipun um rétt sjúklinga til heilbrigðisþjónustu yfir landamæri.

Meginreglan sem nú hefur þegar tekið gildi er að sjúklingur þurfi ekki að sækja um samþykki fyrir að sækja sér heilbrigðisþjónustu erlendis áður en þjónustan er veitt, þó frá þessu séu ákveðnar untantekningar.

Hámark miðað við kostnað hérlendis

Er endurgreiðslan að hámarki þeirri fjárhæð sem samsvarandi þjónusta hefði kostað í íslenska heilbrigðiskerfinu og að hún sé veitt hér á landi.

Jafnframt er heimilt að synja sjúklingi um endurgreiðslu ef hægt hefði verið að veita þjónustuna innan réttlætanlegra tímamarka, ef öryggi sjúklings er talið stefnt í hættu eða ef ástæða er talin til að efast um að þjónustan standist öryggis- og gæðakröfur.