Heilbrigðislausnasvið TM Software, sem er hluti af Nýherja, hefur þróað Veru – heilsuvef, í samstarfi við Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Vera – heilsuvefur gerir almenningi kleift að eiga í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna á vefnum. Gerir heilsuvefurinn notendum m.a. mögulegt að bóka tíma í heilbrigðisþjónustu (t.d. hjá lækni eða heilsugæslu), óska eftir endurnýjun á lyfseðli, senda fyrirspurn á heimilislækni og eiga í öruggum samskiptum við lækninn, skoða óútleysta lyfseðla og lyfseðla sem viðkomandi hefur leyst út síðustu þrjú ár ásamt því að skoða helstu atriði úr eigin sjúkraskrá.

Hákon Sigurhansson, forstöðumaður heilbrigðislausnasviðs TM Software, segir að með Veru sé heilbrigðisþjónustan loksins komin á netið. Hákon segir að almenningur hafi, í sumum tilfellum, sent tölvupóst á heilbrigðisþjónustuna en sú leið sé ekki örugg og samskiptin rati sjaldan í sjúkraskrá einstaklingsins.

„Með Veru verður til örugg leið til samskipta við heibrigðisþjónustuna og öll samskipti verða hluti af sjúkraskrá einstaklingsins. Þetta er bylting í okkar huga og enginn vafi á að með Veru geta heilbrigðisstofnanir veitt betri þjónustu, með auknu öryggi og síðast en ekki síst aukið hagræði,“ segir Hákon.

Embætti landlæknis og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins stefna að því að opna þjónustuna í áföngum á fyrstu heilsugæslustöðvunum á næstunni.