Sjúkratryggingar Íslands valda ekki hlutverki sínu og samningsleysi á milli hins opinbera annars vegar og tannlækna og sérfræðilækna hins vegar veldur því að hlutur almennings í kostnaði við sjúkraþjónustu fer ört vaxandi. Þetta eru niðurstöður ráðgjafahóps sem velferðarráðherra fól að skoða starfsemi einkarekinna læknastofa.

Það eru Sjúkratryggingar Íslands sem fyrir hönd yfirvalda eru ábyrgar fyrir samningsgerð við þjónustuveitendur um kaup á þjónustu til handa sjúklingum og telur hópurinn SÍ ekki hafa sinn hlutverki sínu. Ráðgjafahópurinn leggur þó áherslu á að ábyrgðin sé yfirvalda sem veita þurfi SÍ það starfsumhverfi, og þau tól, sem þarf til að samningar geti náðs. Aðgerðarleysi yfirvalda í þessu samhengi segir ráðgjafahópurinn vart geta talist annað en lögbrot.

Sjúklingar borga meira

„Samningar hafa ekki verið í gildi á annan áratug þrátt fyrir lagaákvæði þar um,“ segir í skýrslunni um samninga við tannlækna. Um sérgreinalækna er bætt við: „[á] annað ár hafa ekki verið í gildi samningar milli sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og SÍ um greiðslur fyrir veitta þjónustu og samskipti þessara aðila.“

Þrátt fyrir að samningar náist ekki geta stjórnvöld á grundvelli laga tekið þátt í lækniskostnaði hjá sérgreinalæknum og tannlæknum samkvæmt gjaldskrá sem yfirvöld setja einhliða. Í þessu tilliti má líta til kostnaðarþátttöku almennings sem aukist hefur úr tæpum 13% í tæp 20% á síðustu áratugum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 1. nóvember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.