Almenn opinber þjónusta hækkaði um 4,9 milljarða króna milli ára eða 10,9%, að því er fram kemur í skýrslu fjármálaráðuneytisins um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu tíu mánuði ársins.

Hækkaði þar af almenn fjárframlög til sveitarfélaga um 2,1 milljarð króna. Útgjaldaaukning vegna samgöngumála nam 1,2 milljörðum króna.

137,1 milljarður til heilbrigðismála

Útgjöld til heilbrigðismála jukust um 15,1 milljarða króna eða um 12,4% og námu þau 137,1 milljarði króna á tímabilinu.

Þar af jókst sjúkrahúsþjónusta um 6,8 milljarða króna, sem er 12,9% aukning.

51,4 milljarðar til menntamála

Útgjöld til menntamála hækkuðu um 4,2 milljarða króna, eða 8,8% á milli ára, og námu þau 51,4 milljörðum króna á tímabilinu.

Jukust bæði framlög til framhaldsskóla, sem fengu 1,6 milljörðum króna meira og svo háskólar sem fengu 2,1 milljörðum meira, eða sem nemur 8,4% og 8,7% aukningu.

121,1 milljarður í velferðarmál

Fimm milljörðum króna meira var sett í almannatryggingar og velferðarmál sem þýðir 4,3% aukningu og námu útgjöld til þeirra 121,1 milljarði króna á tímabilinu.

Jukust þar af lífeyristryggingar um 4,3 milljarða króna og svo jukust örorkubæturnar um 4,6 milljarða króna milli ára.