Það er alveg ljóst að ástandið hvílir á undanþágureglu,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, um samninga sem enn hafa ekki náðst á milli yfirvalda og sérgreina- og tannlækna. „En á meðan ekki hefur verið dreginn fram annar kostur en að nýta þessa heimild höfum við ekki talið okkur vera að brjóta lög. Sé um lögbrot að ræða geta stjórnvöld væntanlega ekki látið það viðgangast og hljóta að setja úrbætur á því í forgang,“ bætir Steingrímur við.

Ráðgjafarhópur á vegum velferðarráðuneytisins skilaði á dögunum skýrslu um starfsemi einkarekinna læknastofa. Þar segir að það hljóti að teljast lögbrot af hálfu yfirvalda að tryggja ekki að samningar náist á milli hins opinbera annars vegar og tann- og sérfræðilækna hins vegar.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra tók undir þetta mat hópsins á aðalfundi Læknafélagsins á dögunum þar sem hann sagði yfirvöld ekki geta átt þátt í að brjóta lög. „Hvað sérgreinalækna varðar eru þetta um 500 þúsund heimsóknir á ári. Við hendum þeim ekki út á einu bretti,“ segir Guðbjartur aðspurður um hvað megi gera náist ekki samningar við læknana. „En ef samningar nást ekki verðum við hugsanlega að færa þessa þjónustu í auknum mæli inn á stofnanirnar,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðið. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.