Bresk stjórnvöld hyggjast fela einkaaðilum rekstur breskra sjúkrahúsa sem standa höllum fæti. Þeim stjórnendum sem hafa staðið sig illa verður sagt upp störfum án starfslokasamnings. Þetta kemur fram í frétt Telegraph. Í stað þeirra verður starfsfólk einkafyrirtækja ráðið í stjórnunarstöður, og fær þá laun frá ríkinu.

Heilbrigðiskerfi Breta er samkvæmt Telegraph einn af stærstu vinnuveitendum í heimi, með 1,3 milljónir starfsmanna. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna þessar fyrirhuguðu breytingar og sagt þær vera skref í átt að einkavæðingu, sem myndi setja hagsmuni hluthafa ofar hagsmunum sjúklinga.

Talið er að stjórnendur um 30 spítala fái aðvörun eða verði látnir taka pokann sinn.