Heildarafli íslenskra fiskiskipa var tæplega 73 þúsund tonn í júní 2015, sem er 16.400 tonnum meira en í júní 2014. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofu Íslands .

Þorskafli stóð í stað, en löndun á öðrum botnfiski jókst um tæplega 2.900 tonn, eða 9% samanborið við júní 2014. Flatfiskafli jókst um 842 tonn, 40% og uppsjávarafli um tæp 13.000 tonn, 63%. Metið á föstu verði jókst aflinn í júní 2015 um 14,3% miðað við júní 2014.

Á síðustu 12 mánuðum hefur heildaraflamagn aukist um tæp 236 þúsund tonn, sem er 21,6% meira magn en á sama tímabili árið áður. Mest aukning varð í löndun á uppsjávarafla, sem var rúmum 266 þúsund tonnum meira á tímabilinu júlí 2014 - júní 2015 en á fyrra 12 mánaða tímabili.