Heildarafli íslenskra fiskiskipa var um 144 þúsund tonn í maí 2015, sem er nærri 12.500 tonnum meiri afli en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands .

Botnfiskafli dróst saman um 6,8% samanborið við maí 2014.  Flatfiskafli jókst um 30,8% frá fyrra ári, og uppsjávarafli um 17,7% sem var nær eingöngu kolmunni.

Á síðustu tólf mánuðum hefur heildarafli aukist um 235 þúsund tonn eða 21,9%, sem skýrist af mun meiri uppsjávarafla en á fyrra tólf mánaða tímabili. Aflinn í maí, metinn á föstu verði, var 0,6% minni en í maí 2014.