Heildarafli íslenska fiskiskipaflotans var 19,9% meiri í apríl en fyrir ári, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Hann hefur engu að síður dregist saman um 3,5% það sem af er ári metinn á föstu verði.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að aflinn hafi numið 110.657 tonnum í apríl á þessu ári samanborið við 80.266 tonn í apríl í fyrra.

Botnfiskafli jókst um tæp 8.100 tonn frá apríl í fyrra og nam hann rúmum 44 þúsund tonnum í ár. Þar af var þorskaflinn rúm 21.000 tonn, sem er aukning um rúm 4.900 tonn frá í fyrra. Ýsuaflinn nam tæpum 4.300 tonnum og er það 428 tonnum minna en fyrir ári. Þá jókst karfaaflinn um rúm 1.200 tonn á milli ára en hann nam nú 6.400 tonnum. Þá veiddust rúm 7.200 tonn af ufsa sem er rúmlega 2.900 tonna aukning frá apríl í fyrra.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 59.500 tonnum, sem er rúmlega 21.700 tonnum meiri afli en í fyrra. Hagstofan segir að aukninguna megi rekja til aukins kolmunnaafla. Nær engar aðrar uppsjávartegundir voru veiddar í mánuðinum.