Heildareignir innlánsstofnana námu 2.833 milljörðum króna í lok október og lækkuðu um 27,3 milljarða króna frá síðasta mánuði. Innlendar eignir lækkuðu um 42,9 milljarða en erlendar eignir hækkuðu um 15,6 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið.

Heildarskuldir lækkuðu á milli mánaða í október um 77,4 milljarða króna og námu 2.435 milljörðum króna í lok mánaðar. Innlendar skuldir lækkuðu um 64,45 milljarða og erlendar skuldir lækkuðu um 13 milljarða.

Eigið fé innlánsstofnana nam 398 milljörðum króna í lok október og hækkaði um 50 milljarða króna frá fyrri mánuði.

Á vef seðlabankans er tekið fram að virði útlánasafnsins endurspegli ekki skuldastöðu viðskiptavina. „Útlán Arion banka hf, Íslandsbanka hf og NBI hf eru í þessum tölum metin á kaupvirði þ.e. því virði sem þessir aðilar keyptu útlánasafnið á af Kaupþing banka hf , Glitni hf og Landsbanka Íslands hf. Kaupvirðið er það virði sem vænt er að muni innheimtast af útlánunum. Virði útlánasafnsins endurspeglar því ekki skuldastöðu viðskiptavina. Lánasöfnin eru endurmetin með reglubundnum hætti, sem getur leitt til hækkunar eða lækkunar á virði einstakra lána. Breytingar milli mánaða/ársfjórðunga á útlánasafni þessara aðila geta því stafað af endurmati á virði lána eða af raunverulegum lánahreyfingum.“