Samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs nam hagnaður Icebank 65 milljónum króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi samanborið við 2.399 milljónum á öðrum ársfjórðungi. Hagnaður á hvern hlut dróst saman frá öðrum ársfjórðungi, úr 2,10 kr. í 0,06 kr.

Heildareignir bankans uxu um rúmar 80 milljarða króna á ársfjórðungnum, eða 68,7%. Vöxturinn er aðallega til kominn vegna aukinna útlána og krafna á fjármálastofnanir og afleiðusamninga við viðskiptavini.

Fjölgun starfsfólks á þriðja ársfjórðungi nemur 10% og var fjöldi stöðugilda 88 í lok hans.

Í fréttatilkynningu frá Icebank í tengslum við uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung er haft eftir Finni Sveinbjörnssyni bankastjóra: „Icebank hefur styrkt stöðu sína í viðskiptum við fjármálafyrirtæki með áberandi hætti á ársfjórðungnum og þannig byggt á reynslu síðustu 20 ára sem þjónustu- og seðlabanki sparisjóðanna. Þetta kemur fram í örum vexti efnahagsreiknings bankans sem fór upp fyrir 200 milljarða króna í lok ársfjórðungsins og hefur því ríflega tvöfaldast frá áramótum. Það eru fyrst og fremst vaxtaberandi eignir sem eru að aukast og þar af leiðandi hafa hreinar vaxtatekjur bankans vaxið mikið. Er nú svo komið að hreinar vaxtatekjur eru nánast tvöfalt hærri en allur rekstrarkostnaður bankans. Það er einsdæmi meðal íslenskra fjármálafyrirtækja og þótt víðar væri leitað. Þar með verður bankinn betur í stakk búinn að mæta andbyr á verðbréfamörkuðum eins og raunin varð á þriðja ársfjórðungi. Nýlega var tilkynnt um kaup bankans á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf og fyrstu skrefin í að opna eignarhald bankans. Framundan eru því spennandi tímar með áframhaldandi sókn.“

Horfur til ársloka 2007

Í tilkynningunni segir að síðustu uppgjör Icebank hafa sýnt að lánastarfsemi bankans og önnur hefðbundin starfsemi séu sífellt að eflast. Markvisst er unnið að því að styrkja þessa þætti enn frekar þannig að bankinn verði minna háður sveiflum á verðbréfa- og gjaldeyrismörkuðum.

Bankinn var um skeið einn af stærri hluthöfunum í Exista [ EXISTA ] en hefur í tvígang selt stóra eignarhluta. Fyrirhugað er að minnka eignarhlutinn enn frekar og nýta það svigrúm sem myndast til að halda áfram að styrkja uppbyggingu bankans á grundvelli þeirrar framtíðarsýnar sem kynnt var í nóvember 2006.

Ljóst er að óstöðugleiki á innlendum og erlendum gjaldeyris-, skulda- og hlutabréfamörkuðum síðustu vikur hafa haft neikvæð áhrif á afkomu bankans. Áætlanir sýna að hagnaður bankans eftir skatta á öllu árinu 2007 gæti numið um 2,9 ma.kr. samanborið við 4,3 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins að því gefnu að ekki verði um frekari verðlækkun að ræða á hlutabréfum og skuldabréfum í eigu bankans.

Bankinn keypti nýlega Behrens Fyrirtækjaráðgjöf sem rekur skrifstofur í Reykjavík, Riga í Lettlandi og Vilnius í Litháen. Með kaupunum var stigið stórt skref í því að styrkja fyrirtækjaráðgjöf bankans en hún er eitt af áherslusviðunum í framtíðarsýn hans. Jafnframt var með þessum kaupum stigið mikilvægt skref í útrás bankans en þetta verða fyrstu starfsstöðvar hans erlendis.

Fyrirhugað er að stíga enn frekari skref á þessu sviði enda hyggst bankinn sérhæfa sig í því að leiða saman fjárfesta á Norðurlöndum og fjárfestingartækifæri í atvinnurekstri í Eystrasaltsríkjunum, segir í tilkynningunni.