Heildareignir Samsons eignarhaldsfélags Björgólfs Guðmundssonar og fjölskyldu, liðlega þrefölduðust á 18 mánuðum, frá 31. desember 2004 til júníloka á þessu ári og jukust um nær 55 þúsund milljónir króna. Í lok júní var niðurstöðutala efnahagsreiknings tæpar 78 þúsund milljónir króna.

Í yfirliti sem Samson, sem er stærsti og ráðandi eigandi Landsbankans, sendi til Kauphallarinnar kemur fram að bókfært eigið fé í lok júní síðastliðins nam alls 26.562 milljónum króna og hefur eigið fé hækkað um rúmlega 15 þúsund milljónir króna. Bókfært eigið fé tvöfaldaðist því að 18 mánuðum.

Á fyrstu sex mánuðum ársins nam hagnaður Samsons 12.184 milljónum króna sem er rúmlega 400% meiri hagnaður en fyrir ári. Arðsemi eiginfjár var yfir 170%.

Samhliða auknum eignum hafa skuldir Samsons aukist töluvert en heildarskuldir í júnílok námu alls 51.227 milljónum króna og hækkuðu um nær 14 þúsund milljónir á tólf mánaða tímabili. Eigið fé jókst í krónutölu lítið minna eða um rúmlega 12 þúsund milljónir króna. Eiginfjárhlutfall var 49,1% við lok júní.