Virði eigna skilanefndar Kaupþings jókst um 135 milljarða króna á síðasta ári. Óveðsettar eignir skilanefndarinnar voru metnar á 817 milljarða króna í lok síðasta árs, innheimtar þóknanatekjur námu 1,3 milljörðum króna á árinu 2010 og kostnaður við rekstur Kaupþings nam 0,29% af heildareignum. Þetta kemur fram í nýjum fjárhagsupplýsingum í skýrslu fyrir kröfuhafa bankans.

Það þýðir að heildarrekstarkostnaður bankans var 6,5 milljarðar króna á árinu 2010. Nafnvirði heildareigna var 2.251 milljarðar króna. Stærstur hluti kostnaðarins, um 60%, er tilkominn vegna aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar sem nam tæpum 4 milljörðum króna. Mest af því var vegna uppgjörs á afleiðusafni bankans og kostnaðar í tengslum við aðgerðir og rannsóknarvinnu vegna endurheimtuaðgerða erlendis.

Tilkynning skilanefndar Kaupþings í heild sinni:

Nýjar fjárhagsupplýsingar Kaupþings banka

Helstu niðurstöður ársins 2010:

Virði eigna eykst um 135 milljarða króna

Verðmat eigna Kaupþings banka jókst um 135 milljarða króna eða um 17% á árinu 2010. Þá hefur verið leiðrétt fyrir áhrifum vegna 12% styrkingar á gengi krónunnar á tímabilinu. Óveðsettar eignir bankans eru metnar á 817 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýjum fjárhagsupplýsingum í skýrslu fyrir kröfuhafa bankans.

Víðtæk endurskipulagning lánasafns á árunum 2009 og 2010

Stór hluti lánasafns Kaupþings hefur verið endurskipulagður á árunum 2009 og 2010 og má m.a. rekja hækkun á virði eigna bankans til þess, markvissrar eignastýringar og bættra markaðsaðstæðna. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir gengisáhrifum nemur raunaukning á virði eigna á árinu 2010 135 milljörðum króna, en til samanburðar nam raunverðmætaaukning 129 milljörðum króna á árinu 2009. Án leiðréttingar fyrir gengisáhrifum nam verðhækkun eigna 48 milljörðum króna á árinu 2010 og 214 milljörðum króna á árinu 2009.

Rúmlega 1.300 milljóna króna tekjur af starfseminni

Góður árangur hefur náðst í öflun þóknanatekna. Þóknanatekjur af starfsemi skilanefndar á árinu 2010 námu um 1,3 milljörðum króna, sem er í takt við þóknanatekjur bankans á árinu 2009. Þóknanatekjur bankans standa straum af rekstri eignasafnsins á Íslandi.

Stór hluti kostnaðar vegna aðkeyptrar þjónustu

Heildarrekstrarkostnaður bankans á árinu 2010 var 6,5 milljarðar króna sem er 0,29% af nafnvirði heildareigna sem námu 2.251 milljarði króna við árslok 2010. Stærstur hluti kostnaðarins, eða um 60%, er til kominn vegna aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar sem nam tæplega 4 milljörðum króna. Helstu útgjöld koma til vegna erlendra ráðgjafa bankans, kostnaðar við uppgjör á afleiðusafni bankans og kostnaðar í tengslum við aðgerðir og rannsóknarvinnu vegna endurheimtuaðgerða erlendis. Aðgerðir og vinna við hið síðastnefnda hefur staðið yfir frá haustinu 2008 og krafist mikillar samvinnu við alþjóðleg lögfræði- og endurskoðunarfyriræki, þetta er kostnaður sem skilanefnd stefnir á að fáist til baka í gegnum dómsmál.  Þá renna 837 milljónir króna í skattgreiðslur til ríkissjóðs, eða sem samsvarar 13% af heildarkostnaði.

Endurheimtuaðgerðir skila góðum árangri

Frá upphafi hefur skilanefnd fylgt skipulögðu ferli við meðferð og ráðstöfun eigna. Bankinn hefur gert ítarlega greiningu á öllum lánastöðum og mótað áætlun um endurheimtur með það að markmiði að hámarka virði þeirra. Bankinn er ekki markvisst að selja eignir og hefur staðfastlega hafnað öllum tilboðum um sölu á hrakvirði. Á árinu 2010 voru 17 lán gerð upp og námu greiðslur vegna þeirra 23 milljörðum króna og var meðalinnheimtuhlutfall lánanna rúmlega 96%.

Handbært fé 231 milljarðar króna

Handbært fé Kaupþings stóð í 231 milljarði króna þann 31. desember og jókst um 55 milljarða frá síðustu áramótum, þrátt fyrir 17 milljarða neikvæð áhrif vegna gengisstyrkingar krónunnar. Að auki greiddi skilanefnd Kaupþings á árunum 2008 og 2009 um 130 milljarða króna til innstæðueigenda hjá útibúum Kaupþings í Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki og gerði þannig upp allar innstæður í útibúum bankans erlendis. Því munu engar slíkar forgangskröfur lenda á íslenskum skattgreiðendum.

Afstöðutöku til allra krafna lokið

28.167 kröfum var lýst í bú bankans fyrir kröfulýsingarfrest 30. desember 2009 og nam heildarfjárhæð þeirra 7.316 milljörðum króna. Slitastjórn Kaupþings náði yfirlýstu markmiði sínu að ljúka yfirferð og afstöðutöku til allra krafna sem lýst var á hendur bankanum fyrir fund með kröfuhöfum 3. desember 2010. Nú þegar hafa kröfur að upphæð 1.814 milljarðar króna verið dregnar til baka eða þeim endanlega hafnað af slitastjórn án mótmæla og nemur heildarfjárhæð mögulegra krafna í bú bankans því 5.502 milljörðum króna. Kröfur að upphæð 2.883 milljarðar króna hafa verið samþykktar af slitastjórn en þó ríkir ágreiningur um stærstan hluta útistandandi krafna eða sem nemur 5.150 milljörðum króna.

Næstu skref

Kaupþing banki var tekinn til formlegrar slitameðferðar með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur sem birtur var þann 22. nóvember 2010. Á grundvelli 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, getur slitameðferð Kaupþings lokið með tvennum hætti, annars vegar  með nauðasamningi og hins vegar með gjaldþrotaskiptum. Þar sem slitastjórn hefur lokið afstöðutöku til allra krafna hefur myndast grundvöllur fyrir kröfuhafa að gefa álit sitt á næstu skrefum. Skilanefnd og slitastjórn hafa því á undanförnum mánuðum óskað eftir afstöðu og álits kröfuhafa um leiðir og tímasetningar varðandi næstu skref.