Heildareignir tryggingarfélaganna námu 136,5 milljörðum króna í lok síðasta árs og hækkuðu um 0,7 milljarða á milli mánaða.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en þó er um að ræða bráðabirgðatölur sem geta breyst.

Þar kemur fram að handbært fé nam 14,2 milljörðum króna og lækkaði um tæpa 3 milljarða í desember. Útlán og markaðsverðbréf námu 76,8 milljörðum króna og hækkuðu um 1,8 milljarða.

Seðlabankinn segir þá hækkun skýrast að mestu af hlutdeildarskírteinum sem hækkuðu um 1,3 milljarða króna á milli mánaða.

Aðrar eignir, sem eru að mestu hlutdeildarfélög og dótturfélög, hækkuðu um tæpa 2 milljarða í mánuðinum og námu 39,6 milljörðum króna í lok desember.