Seldar gistinætur árið 2016 voru 8,8 milljónir talsins, þar með talið áætlaðar óskráðar gistinætur seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 89% af heildarfjölda gistinátta í fyrra. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Ef litið er til mismunandi tegundi gististaða voru gistinætur flestar á hótelum og gistiheimilum eða 59% allra gistinátta, 11% gistinátta voru á tjaldsvæðum og 30% á öðrum tegundum gistinátta, þar sem Airbnb flokkast undir ásamt annarri heimagistingu, íbúðagistingu, farfuglaheimilum og orlofshúsum í eigu annarra en stéttarfélaga og félagasamtaka.

Milljón óskráðar gistinætur

„Uppbygging gististaða hefur á undanförnum árum ekki náð að fylgja eftir mikilli fjölgun ferðamanna. Mikil eftirspurn eftir gistirými hefur orðið til þess að stóraukið framboð hefur myndast á vefsíðum á borð við Airbnb. Erfitt er að meta nákvæmlega framboð og nýtingu þess gistirýmis sem fellur fyrir utan gistináttatalningu Hagstofunnar. Gistirými skráð á Airbnb er að stórum hluta ekki með í talningu Hagstofunnar vegna þess að upplýsingum um leigusala er ábótavant.

Stærri gististaðir sem skráðir eru á Airbnb eru þó í mörgum tilvikum meðtaldir í tölum Hagstofunnar. Ætla má að árið 2016 hafi tæplega 3600 herbergi/íbúðir verið reglulega til leigu í gegnum vefsíðu Airbnb, þar af um 2000 á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að framboð gistirýmis er ekki stöðugt yfir árið og því er erfitt að áætla nákvæmt framboð og nýtingu gistirýmis. Ef miðað við gögn frá Airdna.co eru flestar eignir í útleigu 1–3 mánuði (38%) á ári en fæstar (15%) í útleigu 10–12 mánuði á ári. Áætlað er að heildarfjöldi gistinátta, seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar síður, sem vantar inn í gistináttatalningu Hagstofunnar hafi verið ríflega 1 milljón árið 2016,“ er einnig tekið fram í frétt Hagstofu Íslands.