Samkvæmt samkeppnislýsingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut er miðað við að þegar uppbyggingu á lóðinni verði lokið muni byggingar Landspítala og Háskóla Íslands verða samtals 176.300 fermetrar. Þar af 141.300 fermetrar undir spítalastarfsemi og 35.000 fermetrar sem tilheyri Háskóla Íslands og Keldum.

Þetta er sama byggingarmagn og heimilað er á lóðinni samkvæmt samningum ríkis og Reykjavíkurborgar. Yfirbyggð bílastæði (undir byggingum og í sérbyggingum) og gluggalaus rými eru þó ekki talin með í þeim tölum.

Í síðustu viku var kynnt ný verðlaunatillaga SPITAL um áfangaskipt heildarskipulag. Þar var aðeins gert ráð fyrir 66.000 fermetra nýbyggingu í fyrsta áfanga. Gunnar Svavarsson, formaður verkefnisstjórnar um byggingu nýs Landspítala, lýsti því þá að auk 33 milljarða nýbyggingar sem verður 66.000 fermetrar verði farið í endurgerð á eldra húsnæði fyrir um 11 milljarða króna.

Þá er áætlað að verja um 7 milljörðum í tækjakaup. Samtals eru það 51 milljarður króna sem fjölmargir hafa skilið sem svo af fréttum fjölmiðla að sé endanlegur kostnaður Háskólasjúkrahússins. Þetta er þó aðeins fyrsti áfangi verkefnisins en auk fyrrgreindrar tölu fara 3-4 milljarðar að mati Gunnars í 10.000 fermetra fyrir háskólastarfsemi sem væntanlega verður kostað af Happdrætti Háskóla Íslands.

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, (SGS) taldi í grein í janúar 2009 að  kostnaður við sjúkrahúshlutann lægi nærri 70 milljörðum króna og hlut háskólans allt að 40 milljörðum. Heildarkostnaður við framkvæmdina yrði því á bilinu 100-120 miljarðar á byggingatíma.

-Nánar í Viðskiptablaðinu