Samkomulag Evrópusambandsins, Noregs og Færeyinga felur í sér að veidd verða 1.046.000 tonn á ári. Eftir því sem fram kemur á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins skiptast þau þannig að Evrópusambandið fær 611 þúsund tonn, 279 þúsund tonn og Færeyingar 156 þúsund tonn. Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ og einn nefndarmanna í samninganefnd Íslands í makríldeilunni, bendir á að ráðgjöf hafi hins vegar falið í sér að í heild yrðu veidd 890 þúsund tonn.

Norski sjávarútvegsráðherrann, Elisabeth Aspaker, fagnar samkomulaginu á vef ráðuneytisins í gær. „Ég hefði kosið að Ísland væri hluti af samkomulaginu. En þríhliða samkomulag er stórt skref í rétta átt,“ segir Aspaker. Hún segir að fullreynt hafi verið að ná samkomulagi með Íslandi. „Það voru margir þættir sem komu í veg fyrir að allir fjórir aðilarnir næðu samkomulagi,“ segir hún jafnframt. Evrópusambandið segir að Íslendingar geti gengið inn í samkomulagið síðar meir.

Bæði Kolbeinn Árnason og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafa sagt að niðurstaðan sé mikil vonbrigði fyrir þá.