Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,09% í ríflega 1,6 milljarðs króna viðskiptum dagsins. Aðalvísitala skuldabréfa stóð hins vegar í stað í 1.356,58 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 8,1 milljarði króna.

Einu fyrirtækin sem hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag voru Össur, HB Grandi og Nýherji, þó einungis sé hægt að segja að viðskiptin með bréf HB Granda hafi verið teljandi. Hækkuðu þau um 1,38% í verði í 32,7 milljón króna viðskiptum og fór hvert bréf upp í 32,95 krónur.

Flest önnur félög á markaði lækkuðu eða stóðu í stað, en í flestum tilvikum var lækkunin frekar lítil, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá um hádegisbilið, hefur Eimskip lækkað töluvert í viðskiptum dagsins.

Nam lækkunin þegar upp var staðið 8,09% í 401 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins úr 272,00 krónum niður í 250,00 krónur, eða um 22 krónur hvert bréf. Lækkaði heildarmarkaðsvirði félagsins því úr tæplega 50,8 milljörðum króna niður í tæpa 46,7 milljarða, eða um 4,1 milljarð króna.

Hagar lækkuðu svo um 1,46% í 91,2 milljóna viðskiptum og fór verðmæti bréfa félagsins niður í 37,10 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,8% í dag í 1,6 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði lítillega í dag í 5,9 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 1,2 milljarðs króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,2% í 3,9 milljarða viðskiptum.