Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs rúmlega 2,9 milljörðum króna í september. Þar af voru rúmir 1,8 milljarðar vegna almennra lána og tæpir 1,1 milljarður vegna leiguíbúðalána.

Þetta kemur fram mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs en heildarútlán sjóðsins jukust því um tæp 84% frá fyrra mánuði sem sjóðurinn segir að megi að mestu rekja til aukningar í leiguíbúðalánum frá fyrri mánuði.

Fram kemur að meðalútlán almennra lána voru um 10 milljónir króna í september sem er um 2% aukning frá fyrri mánuði. Heildarútlán sjóðsins námu rúmum 6,9 milljörðum á þriðja ársfjórðungi sem er um 15% minna en á öðrum ársfjórðungi og um 35% minna en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Heildarútlán sjóðsins nema því rúmum 24,4 milljörðum það sem af er árinu 2009 en það eru um 51% minni útlán en á sama tímabili árið 2008.

Heildarvelta íbúðabréfa minnka um 17% milli mánaða

Þá kemur fram að heildarvelta íbúðabréfa í september nam tæpum 83 milljörðum sem er 17% minni velta en í fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur rúmum 712 milljörðum það sem af er árinu 2009.

Ávöxtunarkrafa Íbúðabréfa lækkaði nokkuð í september eða um 15 til 24 punkta eftir flokkum.