Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri er með hærri fastar launagreiðslur en seðlabankastjóri þegar tekið er tillit til þóknunar fyrir setu í stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME). Laun Arnórs hækkuðu um áramótin. Þá fóru þau úr 90% af launum seðlabankastjóra í 92%, samkvæmt ákvörðun bankaráðs Seðlabanka Íslands.

Að auki ákvað bankaráð skömmu fyrir áramót að heimila að aðstoðarseðlabankastjóri fái greidda mánaðarlega þóknun að fjárhæð 200 þúsund sem FME greiðir stjórnarmönnum. Þá greiðslu hafði Arnór ekki fengið áður.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Seðlabankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um launamál innan bankans. Að meðtaldri þóknun var hækkun fastra greiðslna til Arnórs, vegna starfa fyrir Seðlabankann og setu í stjórnum á hans vegum, um 18,9%. Arnór var eini stjórnandi bankans sem hækkaði í launum um áramótin. Fyrir hækkunina voru laun hans lægri en laun framkvæmdastjóra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.