Mun fleiri konur en karlar hafa lokið grunnháskólanámi samkvæmt viðhorfskönnun sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða framkvæmdi í október á síðasta ári, hins vegar eru konur að meðaltali með mun lægri laun. Þessu greinir Bæjarins Besta frá.

Alls tóku 332 einstaklingar þátt í könnuninni. 22% kvenna höfðu grunnháskólanámi en aðeins 10% karla. Þrátt fyrir það eru heildarlaun kvenna, samkvæmt könnuninni, um 63% lægri en karla. Ein skýring gæti verið sú að meirihluti kvenna í grunnskólakennslu er með háskólapróf og þar eru laun almennt lægri en hjá einkareknum fyrirtækjum.

Könnunin var unnin fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga sem hluti af verkefnum Sóknaráætlunar Vestfjarða. Markmiðið með íbúakönnuninni var að kanna hagi og afstöðu íbúa til ýmissa þátta sem geta haft áhrif á vestfirska hagkerfið. Samhliða íbúakönnuninni var unnið að greiningum á atvinnulífi og öðrum hagrænum þáttum.