Heildarlaun pólskra félagsmanna stéttarfélagsins Eflingar voru að meðaltali um fjórtán prósentum hærri en laun íslenskra félagsmanna í september síðastliðnum. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Eflingar, sem Fréttablaðið vísar til í dag.

Samantektin inniheldur ekki upplýsingar um vinnutímann á bak við launin enda hvergi hægt að nálgast tölur um fjölda vinnustunda eftir þjóðerni. Samkvæmt niðurstöðum norrænnar samanburðarrannsóknar sem rannsóknarmiðstöðin MIRRA vann að og kynnti fyrr í þessum mánuði, eru Pólverjar aðeins með 57 prósent af meðallaunum á íslenskum vinnumarkaði.

„Við ekki bara gagnrýnum, við vefengjum að staðan sé þannig. Rannsókn MIRRU olli töluverðum heilabrotum og niðurstaðan er á skjön við okkar reynslu og við teljum að þarna sé einfaldlega verið að mæla ranga hluti. Hins vegar vantar inn í okkar samantekt tölur um vinnutíma en mér finnst tölurnar benda til þess að pólskir félagsmenn okkar vinni lengri vinnudaga,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar við Fréttablaðið.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir það tilfinningu starfsmanna ASÍ að Pólverjar, bæði karlar og konur, séu almennt á lakari launum en Íslendingar í sambærilegum störfum. „Sú tilfinning byggir ekki á neinum tölfræðilegum upplýsingum,“ segir Halldór en hann telur launamuninn sem var dreginn upp hjá MIRRU vera langt umfram þeirra mat.