Á Íslandi er heildarlaunakostnaður á almennum vinnumarkaði mestur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 29 evrur á vinnustund en minnstur í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 22,5 evrur samkvæmt evrópskri rannsókn á launakostnaði. Hagstofa Íslands greinir frá þessari niðurstöðu á vef sínum.

Hlutfall annars launakostnaðar en launagreiðslna af heildarlaunakostnaði er hæst í samgöngum og flutningum, 17% en lægst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 14,7%.

Samanburður á launakostnaði í þeim atvinnugreinum sem rannsóknin nær til á Íslandi sýnir að heildarlaunakostnaður á Íslandi er í öllum tilvikum hærri en meðaltal heildarlaunakostnaðar innan Evrópusambandsins. Ef borin er saman heildarlaunakostnaður á Íslandi og meðatal heildarlaunakostnaðar innan evrusvæðisins er munurinn hins vegar minni.

Greint er frá þessu niðurstöðum í hefti Hagtíðinda í efnisflokknum Laun, tekjur og vinnumarkaður sem ber heitið Alþjóðlegur samanburður á launakostnaði 2004. Í heftinu eru kynntar niðurstöður rannsóknar á launakostnaði fyrirtækja í Evrópu. Rannsóknin er framkvæmd á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, með þátttöku allra aðildarríkja sambandsins auk Íslands og Noregs.

Tilgangur rannsóknarinnar er að safna samræmdum upplýsingum um launakostnað í Evrópu.