Hreinar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs, þ.e. heildarlífeyrisskuldbindingar að frádregnum fyrirframgreiðslum ríkissjóðs upp í skuldbindingar, hækkuðu úr 339.864 milljónum króna í ársbyrjun 2010 í 345.109 milljónir króna í árslok. Staðan hækkaði því um 5.245 milljónir krórna eða um 1,5% á árinu 2010 af því er fram kemur í ríkisreikningi sem kom út í dag.

Nýjar skuldbindingar hækkuðu um alls 14.779 milljónir króna, þar af voru 8.980 milljónir króna færðar á rekstrarreikning vegna áunnina réttinda og 5.799 milljónir króna á endurmatsreikning á höfuðstól vegna launabreytinga hjá opinberum starfsmönnum.

Heildarlífeyrisskuldbindingar eru reiknaðar út á grundvelli tryggingafræðilegra úttekta hjá lífeyrissjóðum. Heildarlífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs námu 491.622 milljónum króna í árslok 2010 samanborið við 478.855 milljónir króna í ársbyrjun. Hækkunin nemur 12.767 milljónum króna. Breytingin á árinu 2010 skýrist af hækkun skuldbindinga um 21.128 milljónir króna eða um 4,4% en á móti greiddi ríkissjóður 8.361 milljónir króna til sjóðanna.