Heildarviðskipti með skuldabréf námu rúmum 213 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 10,2 milljarða veltu á dag.

Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Kauphallarinnar fyrir nóvember mánuð en til samanburðar nam veltan 12 milljörðum á dag í október.

Mest voru viðskipti með styttri flokka ríkisbréfa, RIKB 10 1210 29 milljarðar og þá með RIKB 11 0722 25 milljarðar. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 132,4 milljörðum en viðskipti með íbúðabréf námu 54,3 milljörðum.

Heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa nam rúmum 1.305 milljörðum og lækkaði um 1,7% milli mánaða.

MP Banki var með mestu hlutdeildina 35,5% (31,2% á árinu), Íslandsbanki með 26,5% (27,9% á árinu) og Landsbankinn með 17,4% (13,6% á árinu).

Ávöxtunarkrafa þriggja mánaða óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI3MNI) lækkaði um 32 punkta í mánuðinum og stendur nú í 8,16%.  Ávöxtunarkrafa eins ára óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI1YNI) hækkaði um 7 punkta og er núna 7,69% og krafa fimm ára óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI5YNI) hækkaði um 15 punkta og stendur í 7,88%.