Heildarmat fasteigna á landinu öllu lækkar um 0,3% við breytingar á fasteignamari hjá Fasteignaskrá Íslands (áður Fasteignamat ríkisins) en samanlagt fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkar um 2,5%.

Heildarmat annarra fasteigna lækkar um 5,5%. Þar af lækkar fasteignamat atvinnuhús¬næðis um 6,0%, fasteignamat jarða lækkar um 2,2% og fasteignamat sumarbústaða lækkar um 5,0%.

Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar en eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um kunna breytingar á fasteignamati að hafa í för með sér hækkanir til jafns við lækkanir á verðmati fasteigna.

Þannig má búast við því að mat á fasteignum hækki á ákveðnum svæðum eða hverfum á höfuðborgarsvæðinu en lækki jafnframt í öðrum hverfum og standi svo í stað á öðrum stöðum. Í endurmatinu sem nú er lögð lokahönd á er  miðað við kaupsamninga frá því í nóvember síðastliðnum.

Allt íbúðarhúsnæði landsmanna er metið með nýjum og endurbættum aðferðum í fasteignamati ársins 2010 sem tekur gildi um næstu áramót. Fasteignaskrá Íslands mun í næstu viku senda út tilkynningar til fasteignaeigenda um allt land þar sem nýja matið er kynnt. Fasteignamat ársins 2010 miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2009 og er frestur til að gera athugasemdir við nýja fasteignamatið til 24. júlí 2009.

Sjá nánar á vef Fasteignaskrár Íslands.