Landsbankinn fjallar um stöðu verslunar og þjónustu frá ýmsum hliðum í tengslum við ráðstefnu Samtaka verslunar og þjónustu um byltingar og breytingar í greininni sem hefst núna klukkan 14:00 í Hilton Reykjavík Nordica Hótel.

Þar mun Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans kynna greininguna.

Á Umræðunni má finna nýja og ítarlega greiningu Hagfræðideildar Landsbankans á stöðu verslunar auk fjölda viðtala við kaupmenn og forystufólk í íslenskri verslun. Fjallað er um áhrif ferðamannabylgjunnar, sprengingarinnar í netverslun, innreið Costco og H&M á íslenska markaðinn og ýmislegt fleira.

Þar kemur meðal annars fram:

  • Heildarneysla á vöru og þjónustu hér innanlands jókst um ríflega 118 milljarða króna árið 2016. Þar af nam aukning í neyslu erlendra ferðamanna um 78 milljörðum króna, eða 66% af heildaraukningunni. Það er því ljóst að kakan sem er til skiptana fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki er að stækka verulega.
  • Á móti vegur að verslun Íslendinga á ferðalögum erlendis og gegnum erlendar netverslanir er einnig að aukast hratt og veitir innlendri verslun aukna samkeppni en viðskipti einstaklinga beint við erlenda aðila jukust um tæplega 22 milljarða króna í fyrra.
  • Velta í heild- og smásölu er ríflega fjórðungur af heildarveltu í hagkerfinu og nam alls rúmum 1.100 milljörðum í fyrra. Tekjuvöxtur í smásölu hefur verið umtalsvert meiri en í heildsölu.
  • Fataverslun á Íslandi hefur aukist talsvert síðustu ár. Fataverslun velti alls um 32 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt gögnum Hagstofunnar, sem er 14% raunaukning milli ára.
  • Ferðamenn eyða tæplega þrisvar sinnum hærri upphæð á veitinga- og skyndibitastöðum en í matvöruverslunum, skv. tölum um kortaveltu.
  • Áfengisneysla ferðamanna fer fyrst og fremst fram á vínveitingastöðum. Þannig námu útgjöld ferðamanna á börum hér á landi um 2.477 ma.kr. á síðasta ári sem gerir um 1.400 krónur á hvern ferðamann. Þetta samsvarar því að hver ferðamaður hafi að meðaltali keypt sér rúmlega einn bjór á bar hér á landi á síðasta ári.