Heildarsala skuldabréfa í nóvember nam 18,3 milljörðum króna, samanborið við 37,9 milljarða og 2,7 milljarða á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en þar af nam sala óverðtryggðra skuldabréfa tæpum 15 milljörðum og sala verðtryggðra skuldabréfa nam um 3,4 milljörðum króna.

Það sem af er ári nemur heildarsala skuldabréfa um 207,6 milljörðum króna, samanborið við tæpa 260 milljarða á sama tíma í fyrra. Þar af nemur sala á verðtryggðum skuldabréfum tæpum 51,5 milljörðum en sala á óverðtryggðum bréfum rétt rúmum 156 milljörðum króna.

Af verðtryggðu skuldabréfunum hefur mesta salan verið á Íbúðabréfum eða tæpir 20,4 milljarðar króna. Þá nemur heildarsala skuldabréfa sveitafélaga rúmlega 13,3 milljörðum króna en bréf annarra lánastofnana um 7,7 milljörðum króna.

Ríkisbréf eru hins vegar langmest seldu bréfin í formi óverðtryggðra skuldabréfa, eða um 146,7 milljarðar króna – og hefur lítið breyst á milli mánaða. Bréf fyrirtækja í flokki óverðtryggðra skuldabréfa nemur tæpum 9,4 milljörðum.