Heildarsala skuldabréfa í október nam 37,9 milljörðum króna samanborið við 700 milljónir króna mánuðinn áður.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en þar af nam sala óverðtryggðra skuldabréfa um 32 milljörðum.

Það sem af er ári nemur heildarsala skuldabréfa um 204,2 milljörðum króna. Þar af nemur sala á verðtryggðum skuldabréfum rúmum 48 milljörðum en sala á óverðtryggðum bréfum rétt rúmum 156 milljörðum króna.

Af verðtryggðu skuldabréfunum hefur mesta salan verið á Íbúðabréfum eða rúmir 20,3 milljarðar króna. Þá nemur heildarsala skuldabréfa sveitafélaga tæplega 9,8milljörðum króna en bréf annarra lánastofnana um 7,7 milljörðum króna.

Ríkisbréf eru hins vegar langmest seldu bréfin í formi óverðtryggðra skuldabréfa, eða um 146,7 milljarðar króna – og hefur lítið breyst á milli mánaða. Bréf fyrirtækja í flokki óverðtryggðra skuldabréfa tæpum 9,4 milljörðum.

Á sama tíma í fyrra nam heildarsala skuldabréfa rúmum 257 milljörðum króna en helsti munurinn var í formi verðtryggðra skuldabréfa sem þá námu um tæpum 94 milljörðum króna. Sala óverðtryggðra skuldabréfa er á svipuðu reiki á milli ára en á sama tíma í fyrra námu þau rúmlega 163 milljörðum króna.