Kröfuhafar fjárfestingarfélagsins Milestone eiga í mesta lagi von um að fá um 5,8% upp í kröfur sínar ef miðað er við að virði eigna félagsins sé um 4,6 milljarðar króna.

Heildarskuldir Milestone eru um 79,6 milljarðar króna samkvæmt yfirliti sem kynnt var kröfuhöfum nýverið.

Helsti lánardrottinn félagsins er Glitnir en ekki fæst nánar uppgefið hverjir aðrir eru í kröfuhafahópnum, nema hvað þeir eru sagðir flestir íslenskir.

Milestone var stofnað af þeim Wernersbræðrum, Karli og Steingrími. Vonir eru bundnar við að málefni félagsins skýrist á næstu vikum en stjórnendur þess vilja fremur leita nauðasamninga en að félagið verði keyrt í þrot. Þannig megi sem best tryggja hagsmuni lánardrottna.

Stjórnendur nefna tvo kosti í því sambandi: Annars vegar að kröfuhafar fái upp í kröfur sínar allt hlutafé Milestone í réttum hlutföllum við kröfur sem þeir eiga á hendur félaginu. Hins vegar að söluandvirði allra eigna Milestone renni til kröfuhafa félagsins í réttum hlutföllum við kröfur þeirra á hendur félaginu.

Spítalarekstur í Tyrklandi

Fjárhagsstaða Milestone hefur versnað mjög eftir að stærstu eignir þess voru seldar í Svíþjóð og skilanefnd Glitnis gekk að veðum í hlutafé í Moderna Finance AB, dótturfélagi Milestone í Svíþjóð, en þar með tók skilanefndin yfir helstu eignirnar á Íslandi, þ.e.a.s. Sjóvá, Askar og Avant.

Það sem eftir stendur í Milestone er fasteignaverkefni í Tyrklandi, nefnt Keira, sem metið er á 1,1 milljarð króna, níutíu og eins prósenta hlutur í Staterbank í Makedóníu sem metinn er á 1,5 milljarða og útistandandi kröfur upp á 2 milljarða króna. Þetta gerir sem fyrr segir samtals 4,6 milljarða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu.