Hrein peningaleg eign ríkissjóðs var neikvæð um 723 milljarða króna í lok 3. ársfjórðungs. Það jafngildir 44,6% af landsframleiðslu. Á sama tíma í fyrra var staðan neikvæð um 36,9% af landsframleiðslu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í Hagtíðindum Hagstofunnar um fjármál hins opinbera á 3. ársfjórðungi.

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.768 milljörðum króna í lok fjórðungsins eða sem nemur 109,2% af áætlaðri landsframleiðslu. Til samanburðar nam skuld ríkissjóðs 1.676 milljörðum króna á 3. ársfjórðungi í fyrra. Það svaraði til 109% af landsframleiðslu.