Hlutfall erlendra skulda af heildarskuldum ríkissjóðs hefur lækkað umtalsvert á síðustu árum og þá sérstaklega á árinu 2005. Í frétt Lánasýslu ríkisins kemur fram að í lok árs 2004 voru erlendar skuldir 141 milljarðar króna eða 54% af lánasafninu. Á síðasta ári lækkuðu erlendar skuldir um ríflega 55 milljarða króna bæði vegna beinnar endurgreiðslu lána fyrir 48 milljarða króna og styrkingar krónunnar.

Erlendar skuldir ríkissjóðs hafa því lækkað og í lok janúar námu þær 86 milljörðum króna eða 43% af lánasafninu. Ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs fyrir árið 2006 gerir ráð fyrir óbreyttri stöðu innlendra lána á árinu og að til innlausnar komi erlend lán fyrir um 19 milljarða króna sem ekki verði endurfjármögnuð. Hlutfall erlendra lána ætti því að lækka enn frekar á árinu 2006.