Helmingurinn af fyrirtækjastyrkjunum sem Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fékk fyrir kosningarnar 2006 var frá fjórum fyrirtækjum Baugi, FL-Group, Kaupþingi og Landsbankanum.

Gísli Marteinn upplýsti um styrki yfir hálfri milljón í dag en áður hefur komið fram að hann þáði styrki frá Baugi og FL-Group. Bylgjan greindi svo frá því í hádeginu að Tryggingamiðstöðin (TM) og Ísfélag Vestmannaeyja, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, hefðu styrkt hann um 500 þúsund hvort félag.

Í heild styrktu fyrirtæki Gísla með framlögum uppá átta milljónir en heildarstyrkir til hans fyrir kosningarnar 2006 námu 10,5 milljónum króna samkvæmt upplýsingum sem hann sendi Ríkisendurskoðun.