Heildartekjur Actavis þrefölduðust á öðrum ársfjórðungi og voru 364,1 milljónir evra, eða 33 milljarðar króna, segir í tilkynningu Actavis.

Hagnaður eftir skatta nær þrefaldaðist og nam 30,1 milljónum evra (2,7 milljörðum króna) á fjórðungnum, en var 11,3 milljónir evra (einn milljarður króna) á sama tíma í fyrra.

EBITDA-framlegð félagsins var 21,8% á öðrum ársfjórðungi, sem skýrist m.a. af góðum árangri í Norður-Ameríku og í Mið og Austur Evrópu og Asíu, segir Actavis.

Félagið markaðssetti 107 ný samheitalyf á helstu markaði félagsins (63 einstök lyf) á fjórðungum, eða alls 197 á fyrri hluta ársins, sem styður vel við öflugt lyfjaúrval samstæðunnar, segir Actavis.

?Við erum ánægð með rekstur félagsins á fyrri hluta ársins og erum við að ná góðum árangri á flestum okkar lykilmörkuðum. Öflugur innri vöxtur og góð framlegð styðja við þá stefnu okkar að byggja upp alþjóðlegt fyrirtæki með góða tekjudreifingu á stærstu lyfjamörkuðum heims," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis.

?Lögð hefur verið rík áhersla á að samþætta vel þau fyrirtæki sem við höfum fjárfest í á undanförnum árum og endurspeglar þessi árangur hversu vel okkur hefur tekist til. Þá er ánægjulegt að sjá góðan árangur í okkar eigin þróunarstarstarfi og sókn inn á nýja markaði og er annar ársfjórðungur yfir okkar væntingum. Við teljum að félagið sé vel í stakk búið til frekari vaxtar og að við náum okkar útgefnu markmiðum á árinu," bætti hann við.