Heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2009 eru áætlaðar 395,8 milljarðar króna, 65,3 milljörðum minni en á árinu 2008.

Samdrátturinn nemur 14,2% að nafnvirði en 24,6% að rauvirði, en spáð er að verðbólga verði 13,8% á næsta ári.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins en þar kemur fram að ráðuneytið hefur að undanförnu, í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, uppfært tekjuáætlun ríkissjóðs í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 við 2. umræðu á Alþingi.

Áætlað er að skatttekjur í heild verði 357,7 milljarðar og dragist saman um 48,9 milljarða milli ára.

Þá er gert ráð fyrir að skattar á tekjur og hagnað nemi alls 126,3 milljörðum króna á árinu 2009 og lækki um tæpa 36 milljarða frá árinu 2008.

Áætlað er að skattar á vöru og þjónustu nemi 180,9 milljörðum króna og lækki um 12,2 milljarða króna frá árinu 2008.

Í vefritinu kemur fram að áætlunin er byggð á spá um þróun einkaneyslu, innflutnings og annarra hagstærða, en í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði neikvæður um 9,6% á árinu 2009 og þjóðarútgjöld dragist saman um tæp 20%.