Heildartekjur sveitarfélaga hafa aukist jafnt og þétt frá árinu 2010, framlegð frá rekstri hefur aukist og áætlanir þessa árs geri ráð fyrir nokkrum hagnaði. Þetta kemur fram í áætlunum sem innanríkisráðuneytið hefur tekið saman um þróun fjármála sveitarfélaga síðustu árin í kjölfar þess að ráðuneytinu hafa borist fjárhagsáætlanir sveitarfélaga.

Fjárhagsáætlanir 2014 gera ráð fyrir að heildarskuldir og skuldbindingar A-hluta sveitarfélaga verði um 268,2 milljarðar króna og um 557,3 milljarðar í A og B-hluta. A-hluti sjóðsins er sá hluti sem heyrir beint til reksturs sveitarfélagsins.

Litið til þróunar skuldahlutfalls kemur fram að frá árinu 2010 hefur skuldahlutfallið farið lækkandi. Fjárhagsáætlanir ársins 2014 gera ráð fyrir að skuldahlutfallið verði um 118% í A-hluta og um 183% í A og B-hluta.