*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 14. nóvember 2021 18:23

Heildarumfang stuðnings 30 milljarðar

Meirihluti opinbers stuðnings til landbúnaðar er í óbeinu formi samkvæmt mati OECD á heildarumfangi hans.

Júlíus Þór Halldórsson
Þórólfur Mattíasson hagfræðiprófessor hefur lengi rannsakað og sagt skoðun sína á landbúnaðarkerfinu hér á landi.
Haraldur Guðjónsson

„Þetta eru raunverulegir peningar sem ég og þú borgum þegar við löbbum út í búð og kaupum mjólk,“ sagði Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag. Þar ræddi hann heildarumfang styrkja til landbúnaðar – að óbeinum stuðningi á borð við innflutningshöft meðtöldum – sem OECD metur á um 30 milljarða. Beinar fjárveitingar úr ríkissjóði nema rúmum 13 milljörðum á ári.

„Þar er reynt að meta ekki bara hvað gengur beint útúr fjárlögunum, búvörusamningum, heldur er líka reynt að ná utan um ávinning bænda af innflutningshömlum. Það er þróuð aðferðafræði til þess að meta það, og þá kemur í ljós að umfang þessara óbeinu styrkja er meira heldur en beinu styrkjanna,“ sagði Þórólfur um mat OECD og niðurstöðuna fyrir Ísland, sem hann rakti nýlega í grein á Vísindavefnum.

Mozzarella úr kúamjólk í stað vísundamjólkur
Fyrir utan innflutningshöft eru teknir inn þættir á borð við annan óbeinan stuðning, rekstur rannsóknarstöðva fyrir landbúnað, skólahald fyrir landbúnaðinn og svo framvegis. „Þannig að það týnist svona ýmislegt fleira til.“

Til viðbótar við óbeina stuðningin sagði Þórólfur birtingarmynd landbúnaðarkerfisins eins og það er í dag til dæmis þá að Mozzarella ostur hér á landi sé úr kúamjólk en ekki vísundamjólk. „Ég ætla ekkert að lýsa muninum á bragðinu, en hann er umtalsverður. Við erum svift þessum möguleika til að njóta góðrar vöru sem aðrir en íslenskir bændur framleiða.“

„Er endilega skynsamlegt að eyða meiru í niðurgreiðuslu á eina rollu en á eitt gamalmenni?“ sagði Þórólfur meðal annars, og benti á að fjármunina mætti í staðinn nýta í heilbrigðis- eða velferðarkerfinu.

Kjör bænda bág og kolefnissporið hátt
Hann sagði þennan mikla stuðning þó ekki skila sér í kjörum bænda, sem væru afar bág. „Auðvitað er enginn sem framfleytir fjölskyldu og svo framvegis á einhverjum 300 þúsund krónum á mánuði. Það þýðir það að þeir eru að langmestu leyti að vinna við eitthvað annað. Þannig að það er verið að henda þarna mjög miklu fé í hobbý að einhverju leyti.“

Ennfremur benti hann á að kolefnisfótspor innlendrar lambakjötsframleiðslu sé um tvöfalt á við að flytja inn lambakjöt frá Nýja Sjálandi þegar upp er staðið. „Þannig að það er ekki allt sem sýnist í þessu.“

Þá velti hann því upp í lokin hvort ekki væri skynsamlegra að styrkja fólk til búsetu í dreifbýli með beinum hætti, en slíkar hugmyndir hafa verið viðraðar í pólitískri umræðu. „Það sparaðist þá þessi ofbeit á afréttunum og offramleiðsla á kindakjöti á mjólk.“